Sýnum ábyrgð og öryggi í umgengni við flugelda.

Ráð #5 … til umhugsunar:

Áhrif áfengis felast meðal annars í að dómgreind slævist. Það skapar mikla hættu við meðferð flugelda þar sem varkárni og ábyrgðar er þörf. Minni dómgrreind þýðir einfaldlega að skynsemin minnkar og fólk tekur meiri áhættu. Það er því mikil hætta á að fólk meti aðstæður ekki rétt. Það þýða auknar líkur á mistökum. Önnur áhrif eins og þau að sjónsvið þrengist, sjón í myrkri daprast, nákvæmni versnar og samhæfing tauga og vöðva skerðist gerir umgengni við flugelda undir áhrifum áfengis verulega varasama.

Árlega slasast börn af völdum flugelda. Drengir á aldrinum 8-14 ára eru þar stærsti hópurinn.
Sum slysin eru alvarleg og áverkarnir sem af þeim hljótast geta verið varanleg, svo sem skemmdir í augum, fingurmissir, heyrnarskerðing eða heyrnarmissir og brunasár sem skilja eftir ævilöng ör. Þess vegna þarf að sýna mikla aðgæslu og varkárni við meðferð flugelda. Það góða er að við getum komið í veg fyrir að svona slys verði.

Þar bera fullorðnir mikla ábyrgð. Hlutverk þeirra er að vernda börn og skapa þeim öruggar aðstæður og umhverfi. Það er erfitt að verða valdur að slysi á barni vegna ábyrgðarleysis eða kæruleysis. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar og aðrir fullorðnir sem taka þátt í gleði barna við að skjóta upp flugeldum eða eiga við annað slíkt til þess að fagna nýju ári séu allsgáðir og sýni fyllsta öryggi í hvívetna.