Veitum óáfengt um jólin.

Ráð #4 … til umhugsunar:

Líf okkar er umvafið og gegnsýrt af alls kyns táknum og tilvísunum sem við leiðum ekki hugann að og látum okkur almennt í léttu rúmi liggja. Þessi tákn, eða hlutirnir sem um ræðir, vekja með okkur tilfinningar án þess að í sjálfu sér sé um einhverja töfragripi að ræða. Hlutirnir orka ekki á tilfinningar okkar vegna eiginleika sjálfra sín heldur vegna þess að samfélagið, við, höfum veitt þeim hlutverk. Áhrifin stafa af því að við höfum vanist þeim við ákveðin, hátíðleg tækifæri.

Dæmi um mjög sterkt tákn er jólatréð og áhrif þess á okkur. Jólatréð getur komi okkur í gott skap og verið ómissandi til þess að skapa réttu jólastemminguna, Eiginleikar trésins sjálfs vekja ekki hátíðablæ jólanna eða útskýra þær tilfinningar sem gagntaka hugann. Önnur dæmi um tákn sem vekja tilfinningar eru áramótabrennur. Það eitt að horfa á logandi bálköst dugar skammt til að skýra þessi áhrif. Skýringanna er að leita í samfélaginu sem gefur ákveðnum hlutum táknræna merkingu.

Áfengi er dæmi um fyrirbæri sem hefur sterka táknbundna skírskotun. Áfengi er mörgum tákn um hátíðleika og tilbreytingu og tengist því að gera sér dagamun. Flestir sem nota áfengi um jól og slíkar hátíðir gera það ekki í vímuskyni, heldur einungis í táknrænum tilgangi og finnst það tilheyra og vera ómissandi við slík tækifæri. Öðrum er áfengi allt annað, til dæmis tákn um vandamál, kvíða, öryggisleysi og jafnvel ofbeldi. Því miður eiga margir slæmar minningar frá bernskuárum um ölvun sem hefur spillt jólagleði eða annarri hátíðarstemmingu. Þessar minningar geta verið ótrúlega sárar og fylgt fólki alla ævi. Það er í höndum foreldra og forráðamanna barna að tryggja þeim gleðilegar minningar frá jólum og áramótum. Munum að áfengi er val en ekki nauðsyn. Vandaðir og vel fram bornir óáfengir drykkir á hátíðarborðið sóma sér vel sem tákn um hátíðleika. Óáfengt er góður kostur!

Þú finnur óáfenga drykki á vef Fræðslu og forvarna: ÓÁFENGT